• fös. 08. mar. 2013
  • Landslið

U19 kvenna - Jafntefli í markaleik

U19 landslið kvenna
ksi-u19kvenna

Stelpurnar í U19 kvenna léku í dag vináttulandsleik við Skota en leikið var á La Manga.  Lokatölur urðu 4 - 4 eftir að íslenska liðið hafði leitt í leikhléi, 3 - 1. 

Skotar komust yfir á 25. mínútu en þremur mínútum síðar jafnaði Anna María Baldursdóttir metin eftir darraðadans í vítateig Skota eftir hornspyrnu.  Aðrar þrjár mínútu liðu og þá var Aldís Kara Lúðvíksdóttir búin að koma íslenska liðinu yfir.  Það var svo á 43. mínútu sem að Svava Rós Guðmundsdóttir bætti þriðja marki Íslendinga við eftir góðan undirbúning Aldísar Köru.

Íslenska liðið leiddi í leikhléi, 3 - 1 en Skotar mættu grimmir til leiks í síðari hálfleiknum og með mörkum á 62. og 65. mínútu jöfnuðu þær metin.  Þær komust svo yfir þegar um 5 mínútur lifðu leiks en með síðustu spyrnu leiksins, jafnaði Telma Þrastardóttir metin þegar hún vippaði laglega yfir markvörð Skota.  Fjörugt 4 - 4 jafntefli því staðreynd.

Íslenska liðið leikur þriðja og síðasta vináttulandsleikinn í ferðinni á sunnudaginn þegar leikið verður við Frakka.