• mið. 13. nóv. 2013
  • Fræðsla

Styrkjum neyðaraðstoð UNICEF

UNICEF
unicef-logo-clip

Landslið karla í knattspyrnu beinir í aðdraganda stórleikjanna við Króatíu athyglinni að börnum sem eiga um sárt að binda.  Leikmenn hvetja landsmenn til að leggja neyðarstarfi UNICEF á Filippseyjum lið í kjölfar eins stærsta fellibyls sögunnar „Við getum öll lagt okkar að mörkum,“ segir landsliðsfyrirliðinn.

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu hvetur landsmenn til að styrkja neyðarsöfnun UNICEF fyrir börn á Filippseyjum. Skelfileg eyðilegging blasir við á eyjunum þar sem einn stærsti fellibylur sögunnar gekk yfir um síðustu helgi. Meira en fjórar milljónir barna eru í sárri neyð og þurfa tafarlausa hjálp. UNICEF var á staðnum áður en fellibylurinn gekk yfir, er þar nú og verður þar áfram. Mikið magn hjálpargagna hefur þegar verið sent á vettvang.

Eins og alþjóð veit spilar landslið karla í knattspyrnu tvo leiki við Króatíu, 15. og 19. nóvember, þar sem undir er laust sæti á HM í Brasilíu á næsta ári. Með ákalli sínu vilja liðsmenn landsliðsins nota tækifærið í aðdraganda leikjanna og vekja máls á bágum aðstæðum barna og neyðarsöfnun UNICEF.

„Þarna eru börn sem hafa upplifað miklar hörmungar. Ef við getum vakið athygli á því og bent fólki á hversu auðvelt er að stykja UNICEF til að hjálpa þessum börnum er það hið besta mál,“ segir Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins.

Með því að senda sms-skilaboðin BARN í símanúmerið 1900 styrkir fólk neyðarsöfnun UNICEF um 1.900 krónur. Þessari auðveldu styrktarleið vilja leikmenn landsliðsins halda á lofti.

„Þetta tekur örskamma stund en skiptir miklu máli. Við getum öll lagt okkar af mörkum,“ segir Aron en í dag fór fram upptaka á ákalli landsliðsmannanna sem send verður út í aðdraganda leikjanna.

Landsliðið styður UNICEF

UNICEF og knattspyrna

UNICEF hefur löngum unnið með knattspyrnuliðum og leikmönnum um allan heim við að vekja athygli á bágum aðstæðum barna og bæta þær. Frægt er samstarf UNICEF og stórliðsins Barcelona auk þess sem helsta stjarna liðsins, Leo Messi, er sérstakur góðgerðasendiherra UNICEF. Þá hefur David Beckham verið óþreytandi við að vekja athygli á að öll getum við sameinast og bætt líf barna.

„Það er okkur hjá UNICEF á Íslandi gleðiefni að íslenska karlalandsliðið og KSÍ hyggist leggja UNICEF lið. Tenging UNICEF og knattspyrnuheimsins er sterk og ótrúlegt hvað fótboltamenn um allan heim hafa gert til að vekja athygli á því hvernig við getum öll sameinast um að gera heiminn að betri stað fyrir börn,“ segir Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

„Það er ómetanlegt að landsliðið hér heima veki athygli á þeirri skelfilegu neyð sem nú ríkir á Filippseyjum og hversu auðvelt er að styrkja hjálparstarf UNICEF á svæðinu. Fyrir þetta erum við afar þakklát.“

UNICEF

Um UNICEF:

UNICEF (Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna) hefur í tæpa sjö áratugi verið leiðandi í hjálparstarfi fyrir börn í heiminum. Við berjumst fyrir réttindum barna á heimsvísu og sinnum bæði langtímauppbyggingu og neyðaraðstoð. UNICEF treystir eingöngu á frjáls framlög og hefur að leiðarljósi þá bjargföstu trú að öll heimsins börn eigi rétt á heilsugæslu, menntun, jafnrétti og vernd. Við erum á vettvangi í yfir 190 löndum og leggjum áherslu á að ná til allra barna – hvar sem þau eru.