• þri. 08. sep. 2015
  • Fræðsla

FC Sækó æfðu á Laugardalsvelli

FC-Saeko-sept-2015---0019

Í vikunni kíktu bráðefnilegir leikmenn fótboltaliðsins FC Sækó í heimsókn á Laugardalsvöll og tóku æfingu undir handleiðslu Halldórs Björnsson, þjálfara U17 ára liðs drengja. Vel var tekið á því á æfingunni en óhætt er að segja að létt og skemmtilegt andrúmsloft hafi þó einkennt æfinguna og stemninguna í hópnum.

Fótboltaverkefnið Geðveikur fótbolti og fótboltaliðið FC Sækó byrjaði í nóvember 2011 og er samstarfsverkefni velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, geðdeildar Landspítalans og Hlutverkaseturs.

Verkefnið felst í því að íbúum í búsetukjörnum fyrir geðfatlaða, notendum á geðsviði landspítalans og Hlutverkaseturs ásamt starfsfólki stendur til boða að æfa fótbolta. Markmiðið er að efla heilsu og virkni notenda ásamt því að veita jákvæðan og uppbyggilegan félagslegan stuðning. Verkefnið fékk strax mjög góðar viðtökur og mættu 15-20 einstaklingar að jafnaði hvern einasta mánudag og eru enn að í dag.

Fyrr á þessu ári fór FC Sækó í keppnisferð til Skotlands og kynnti sér samskonar verkefni þar í landi. Ljóst er að sjálfstraust og gleði þátttakenda hefur aukist með þessu verkefni og á næsta ári stefnir liðið á að fara til Notts County í Englandi og kynnast starfi sem þar er unnið. Stefnt er að gerð heimildarmyndar um þá ferð.

Smelltu hérna til að skoða fleiri myndir af FC Sækó.