• mán. 12. mar. 2018
  • Fræðsla

KSÍ styður Vinaliðaverkefnið

Vinalidir1

Nýverið gaf Knattspyrnusamband Íslands 96 bolta til Vinaliðaverkefnisins. 48 skólar eru þátttakendur í verkefninu og undanfarnar vikur hefur tveimur fótboltum verið dreift í hvern skóla. 

Vinaliðaverkefnið gengur út á það að hvetja nemendur til meiri þátttöku í afþreyingu í frímínútunum og skapa betri skólaanda. Aðal markmiðið með þessu verkefni er að bjóða öllum nemendum skólans fjölbreyttara úrval afþreyingar, þannig að bæði yngri og eldri nemendur skólans finni eitthvað við sitt hæfi. 

Markmiðið er að allir nemendur skólans hlakki til að mæta í skólann sinn, alla daga. Vinaliðaverkefnið er ekki eineltisáætlun heldur forvarnarverkefni og er hugmyndafræðin sú að þar sem boðið er upp á skipulagt starf, fái gerendur eineltis aðra hluti til að hugsa um. 

Markmið Vinaliðaverkefnisins - jákvæðni og vellíðan 

- Aðalmarkmið Vinaliðaverkefnisins er að vinna gegn einelti með því að bjóða upp á jákvæða afþreyingu á skólalóðinni í frímínútum. 

- Hreyfing nemenda eykst ef fjölbreytt úrval leikja er á skólalóðinni, færri eru alveg óvirkir. - Við viljum að öllum nemendum líði vel í sínum skóla og taki þátt með jákvæðni í að gera skólann sinn enn betri en hann er. 

- Nemendur sem takast á við hlutverk Vinaliðans fá frábæra leiðtogaþjálfun í gegnum hlutverkið. 

Heimasíða verkefnisins: http://vinalidar.is/ 

Instagram-síða Vinaliða: https://www.instagram.com/vinalidar/ 


Krakkarnir á Ísafirði voru hæstánægðir með nýju boltana.


Nemendur í Egilsstaðaskóla og Brúarásskóla með nýju boltana, kampakát.