• mið. 30. maí 2018
  • Fræðsla

Útbreiðslunefndin í Ólafsvík

Nýverið stóð Víkingur Ólafsvík fyrir fótboltaveislu. Veislan fór fram í íþróttamiðstöðinni í Ólafsvík en Víkingar taka í notkun nýtt fótboltagras á aðalvelli félagsins á næstu dögum. Boðið var upp á ýmsa skemmtilega hluti, s.s. leiktæki, fótbolta-skot skífu og óhætt er að segja að veislan hafi verið vel sótt af fjölda barna og fullorðinna.

Valgeir Sigurðsson, formaður útbreiðslunefndar, og Jakob Skúlason, fulltrúi vesturlands í útbreiðslunefnd, sóttu Ólsara heim í tilefni dagsins og fengu þeir höfðinglegar móttökur hjá heimamönnum. Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, fór m.a. með þá félaga út á framkvæmdasvæði og upplýsti um þær framkvæmdir sem standa yfir á aðalvelli félagsins. Ljóst er að þessi breyting mun vera mikil lyftistöng fyrir fótboltann á Snæfellsnesinu bæði fyrir yngri iðkendur og þá eldri.

Alls eru iðkendur í knattspyrnu í Snæfellsbæ 184 talsins, en bæjarbúar eru 1.641. Þrátt fyrir að rúmlega 11% bæjarbúa stundi knattspyrnu, þá hafa heimamenn mikinn áhuga á að auka þátttöku barna af erlendum uppruna í knattspyrnu. Samkvæmt Þorsteini Hauki Harðarsyni framkvæmdastjóra eru einungis 14% barna af erlendum uppruna sem stunda íþróttir eða annað forvarnarstarf á svæðinu.

Knattspyrnusamband Íslands óskar Víkingi Ólafsvík til hamingju með vel heppnaða fótboltaveislu og þakkar fyrir höfðinglegar móttökur.

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, Jakob Skúlason, Valgeir Sigurðsson og Jóhann Pétursson, formaður

knattspyrnudeildar Víkings Ólafsvíkur