• sun. 03. mar. 2019
  • Landslið
  • A kvenna

A kvenna - Ísland mætir Skotlandi á mánudag

Ísland mætir Skotlandi á Algarve Cup á mánudaginn, en um er að ræða annan leik liðsins á mótinu. Leikurinn hefst klukkan 14:00 að íslenskum tíma og verður hægt að fylgjast með gangi leiksins á miðlum KSÍ.

Stelpurnar mættu Kanada í fyrsta leik sínum á mótinu og endaði hann með markalausu jafntefli. Liðið á möguleika á að lenda í efsta sæti riðilsins með sigri. 

Staðan á hópnum er góð og ljóst er að stelpurnar eru tilbúnar í baráttunna gegn Skotum.

Þetta verður í 12. skipti sem liðin mætast, en síðast léku þau gegn hvort öðru á La Manga í janúar síðastliðnum. Sá leikur endaði með 2-1 sigri Íslands. Af þeim 11 leikjum sem liðin hafa leikið hefur Ísland unnið sex, tveir hafa endað mtð jafntefli og Skotland unnið 3.

Jón Þór Hauksson hafði þetta að segja um leik dagsins:

,,Það eru ekki miklar breytingar hjá skoska liðinu. Þær eru þó að fá sterka leikmenn inn sem voru ekki með á La Manga. Öflugur hafsent, miðjumaður og markvörður sem við reiknum með að spili í dag. Það styttist auðvitað í HM hjá þeim og við gerum ráð fyrir að Skotar stilli upp sínu sterkasta liði og ætli sér sigur í dag til að hefa fyrir ósigurinn í janúar."

Margrét Lára Viðarsdóttir og Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir misstu báðar af leiknum gegn Kanada vegna veikinda, en ljóst er að Margrét Lára er tilbúin í leikinn í dag:

,,Margrét Lára hefur verið að taka fullan þátt í okkar æfingum undanfarna daga og er klár í leikinn. Það er aðeins verra ástandið á Þórdísi. Hún veiktist illa og er að braggast en er ekki tilbúin að spila leikinn í dag. Sem er synd því hún hefur farið frábærlega af stað með nýju liði í Svíþjóð og verið að spila virkilega vel."

Á meðan varnarleikurinn gegn Kanada var frábær má segja að sóknarleikurinn hafi hikstað örlítið, en Jón Þór hefur ekki áhyggjur af því:

,,Nei, ég hef ekki áhyggjur af sóknarleiknum. Liðið hefur sýnt á köflum í þessum tveimur leikjum að Ísland getur vel haldið bolta vel og byggt upp góðar sóknir frá öftustu vörn. Það er hins vegar alveg ljóst að við þurfum að leggja mikla vinnu á okkur til að bæta þetta og ná því oftar. Meiri stöðugleika í okkar sóknarleik. Ég hef mikla trú á liðinu hvað þetta varðar en við þurfum að vera þolinmóð."