• fim. 20. jún. 2019
  • Fræðsla

Siguróli Kristjánsson ráðinn til starfa

KSÍ hefur gengið frá ráðningu Siguróla Kristjánssonar í tímabundið grasrótarverkefni. Siguróli, oftast kallaður Moli, mun hafa umsjón með verkefni sem felur í sér heimsókn til minni sveitarfélaga um land allt. Þar mun Moli setja upp skemmtilegar og fjölbreyttar fótboltabúðir á hverjum stað til að efla áhuga iðkenda og styðja við bakið á knattspyrnustarfinu á staðnum.

Undirbúningur stendur yfir og á næstu dögum verður haft samband við þau sveitarfélög sem fyrirhugað er að heimsækja. Áætlað er að verkefnið standi yfir til loka ágústmánaðar.

Moli mun hafa aðstöðu í Íþróttahöllinni á Akureyri, á skrifstofu ÍSÍ. Moli er Akureyringur í húð og hár og lék um árabil með Þór, auk þess sem hann hefur þjálfað hjá félaginu í mörg ár. Þess má einnig geta að hann á tvo A landsleiki að baki.

KSÍ býður Mola velkominn til starfa og hlakkar til að ráðast í þetta skemmtilega og spennandi verkefni.