• þri. 03. sep. 2019
  • Fræðsla

KSÍ styður við þjóðarátak "Á allra vörum"

Sunnudaginn 1. september hófst 9. þjóðarátak Á allra vörum.  Í þetta skiptið nýtur „Eitt líf“ stuðningsins, en þar hefur verið unnið óhefðbundið forvarnarstarf í grunnskólum landsins, sem vakið hefur mikla athygli.   Starfsemin hófst eftir lát ungs drengs, Einars Darra, í maí 2018, og byggir á því að fræða börn og ungmenni, foreldra þeirra og kennara um þá hættu sem fylgir neyslu vímuefna og lyfseðilsskyldra lyfja.  

KSÍ styður Á allra vörum við að vekja athygli á á þessu mikilvæga verkefni með því að nýta leiki A landsliða kvenna og karla í september til kynningar. Meðal annars báru leikmenn A landsliðs kvenna sérstök armbönd þegar þjóðsöngvarnir voru leiknir fyrir leik liðsins gegn Slóvakíu á mánudagskvöld - svört armbönd með skilaboðunum "Vaknaðu!", sem er slagorð verkefnisins. 

Hægt er að leggja málefninu lið með því að hringja í 900 númer söfnunarinnar:

907-1502 fyrir kr. 2.000
907-1504 fyrir kr. 4.000
907-1506 fyrir kr. 6.000
907-1508 fyrir kr. 8.000
907-1510 fyrir kr. 10.000

Eða millifæra frjáls framlög inn á reikning 537 26 55555, kennitala: 510608-1350.

Á allra vörum er kynningar- og fjáröflunarátak þar sem þjóðin sameinast um ákveðið málefni og lætur gott af sér leiða. Það eru þær Gróa Ásgeirsdóttir, Guðný Pálsdóttir og Elísabet Sveinsdóttir sem eru potturinn og pannan á bak við Á allra vörum.  Hugmyndafræðin gengur út á að velja eitt málefni á ári – málefni sem þarfnast athygli og aðstoðar.  Á allra vörum hefur staðið fyrir árlegum átökum frá árinu 2008.

Nánar um verkefnið á vef átaksins Á allra vörum.

Mynd með grein:  Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net.