• mið. 17. jún. 2020
  • Landslið
  • A karla
  • A kvenna

Þriggja leikja lotur í október og nóvember

Á fundi stjórnar UEFA 17. júní var staðfest að riðlakeppni Þjóðadeildarinnar og umspil um sæti í lokakeppni EM A landsliða karla færi fram haustið 2020 og að leikið verði í þriggja leikja lotum í október og nóvember. UEFA hafði áður gefið út nýja leikdaga í undankeppni EM A landsliða kvenna.  Ljóst er að framundan er mikið landsleikjahaust.

Umspilsleikir um sæti í lokakeppni EM karla og riðlakeppni Þjóðadeildar UEFA

Leikjagluggar A karla haustið 2020 fara nú fram í þriggja leikja lotum í október og nóvember í stað hefðbundinna tveggja leikja í hverjum glugga . Enn verða þó tveir leikir á hvert lið í september glugganum. Umspilsleikur A karla við Rúmeníu hefur verið dagsettur 8. október og úrslitaleikur um sæti í lokakeppni EM er dagsettur 12. nóvember, og eru þetta fyrstu leikirnir í fyrrgreindum þriggja leikja lotum. Þjóðadeildarleikir í október og nóvember færast því aftur um nokkra daga. Dagsetningar leikja verða staðfestar síðar og tilkynntar eins fljótt og hægt er.

Miðar á landsleiki haustsins á Laugardalsvelli

Ekki liggur enn fyrir hvort leyfilegt verði að vera með áhorfendur á landsleikjum haustsins (Þjóðadeild og umspil A karla og undankeppni EM A kvenna), en ákvörðun UEFA um þetta ætti að liggja fyrir í júlí. Ekki er því hægt enn sem komið er að staðfesta nokkuð sem snýr að miðasölu á leiki Íslands á Laugardalsvelli.

Miðar á úrslitakeppni EM karla

Allir miðar sem keyptir voru á leiki í úrslitakeppni EM 2020 gilda áfram þegar keppnin fer fram sumarið 2021. Miðakaupendur sem vilja skila miðunum og fá þá endurgreidda geta gert það í gegnum miðasöluvef UEFA dagana 18.-25. júní. Miðasölugluggar fyrir stuðningsmenn liðanna sem komast í úrslitakeppnina í gegnum umspilsleikina verða kynntir síðar.

Fréttatilkynning UEFA

Mynd með grein: Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net