• fös. 05. jan. 2024
  • Landslið
  • A kvenna
  • A karla

Glódís Perla þriðja í kjörinu um Íþróttamann ársins

Hin árlega athöfn Íþróttamaður ársins fór fram á fimmtudagskvöld. Þar velja íþróttafréttamenn íþróttamann, þjálfara og lið ársins. Handboltamaðurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson hlaut nafnbótina að þessu sinni.

Knattspyrnan var áberandi í kjörinu í ár. Glódís Perla Viggósdóttir fyrirliði A landsliðs kvenna og Bayern Munich var þriðja í kjörinu. Sveindís Jane Jónsdóttir hafnaði í 5. sæti og Jóhann Berg Guðmundsson í því sjöunda. Að auki fengu þeir Albert Guðmundsson, Hákon Rafn Valdimarsson og Hákon Arnar Haraldsson atkvæði í kjörinu.

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari karlaliðs Víkings R., var kosinn þjálfari ársins og lið hans Víkingur R. var kosið lið ársins. Karlalið Víkings varð tvöfaldur meistari árið 2023. Kvennalið Víkings varð einnig tvöfaldur meistari þegar þær unnu bæði Lengjudeildina og Bikarmeistaratitilinn og höfnuðu þær í öðru sæti í kjörinu um lið ársins. 

Auk Arnars Gunnlaugssonar fékk Heimir Hallgrímsson þjálfari karlaliðs Jamaíka, Freyr Alexandersson þjálfari karlaliðs Lyngby í Danmörku, Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari karlaliðs Breiðabliks og Pétur Pétursson þjálfari kvennaliðs Vals, atkvæði sem þjálfarar ársins.

Karlalið Breiðabliks og kvennalið Vals fengu, ásamt Víkingsliðunum, atkvæði sem lið ársins.

Íþróttaeldhugi ársins var einnig valinn og var Edvard Skúlason einn af þremur tilnefndum, en það var þó Guðrún Kristín Einarsdóttir sem hlaut vinninginn. Edvard hefur starfað um árabil fyrir fótboltadeild Vals. Íþróttaeldhugi ársins er valinn úr röðum sjálfboðaliða í íþróttahreyfingunni sem hafa í gegnum árin nýtt eigin hæfileika, frítíma og sérþekkingu til að efla íþróttastarfið í sínu nærumhverfi eða á landinu öllu.

Á Rúv.is má sjá allt um kjörið.