• mið. 17. jún. 2020
  • Mótamál

UEFA-mót félagsliða 2020/2021 hefjast í ágúst

Stjórn Knattspyrnusambands Evrópu (UEFA) fundaði 17. júní og tók margar ákvarðanir varðandi framhald móta frá keppnistímabilinu 2019/2020 og varðandi upphaf og skipulag móta keppnistímabilið 2020/2021, þar á meðal ákvarðanir sem snúa að íslenskum félagsliðum og þátttöku þeirra í UEFA-mótum.

  • Forkeppni og undankeppni Meistaradeildar karla og Evrópudeildar fer fram með stökum útsláttarleikjum, í stað þess að leika heima og heiman. Dregið verður um hvort liðið fær heimaleik í hverri umferð. Umspil um sæti í riðlakeppni Meistaradeildar fer fram með leikjum heima og heiman, en umspil um sæti í riðlakeppni Evrópudeildar verður stakur leikur.
  • Forkeppni Meistaradeildar karla verður leikin 8. og 11. ágúst, fyrsta umferð undankeppni 18. og 19. ágúst, önnur umferð undankeppni 25. og 26. ágúst, þriðja umferð undankeppni 15. og 16. september og umspil um sæti í riðlakeppninni (heima og heiman) 22/23 og 29/30 september. Riðlakeppnin fer svo fram í október, nóvember og desember.
  • Forkeppni Evrópudeildarinnar verður leikin 20. ágúst, fyrsta umferð undankeppni 27. ágúst, önnur umferð undankeppni 17. september, þriðja umferð undankeppni 24. september og umspil um sæti í riðlakeppninni 1. október. Riðlakeppnin fer svo fram í október, nóvember og desember.
  • Forkeppni (riðlakeppni) Meistaradeildar kvenna verður leikin dagana 7.-13. október, 32-liða úrslit 11/12 og 18/19 nóvember. Aðrar umferðir verða leiknar vorið 2021 og úrslitaleikurinn verður í Gautaborg 16. maí. Dregið verður í forkeppnina fyrstu viku komandi septembermánaðar.

Fréttatilkynning UEFA

Mynd með grein:  Vefur UEFA.