• þri. 27. okt. 2020
  • Landslið
  • A kvenna

Tveggja marka tap gegn Svíþjóð

A landslið kvenna tapaði með tveimur mörkum gegn engu fyrir liði Svíþjóðar á Gamla Ullevi í Gautaborg í kvöld, þriðjudagskvöld, í undankeppni EM 2021.  Um toppslag í riðlinum var að ræða, en liðin höfðu gert 1-1 jafntefli á Laugardalsvelli í september.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en Svíar, sem fengu brons á HM í Frakklandi 2019, voru ívið meira með boltann.  Bæði lið léku sterkan varnarleik og fátt var um marktækifæri, en eina mark hálfleiksins kom á 25. mínútu þegar Sofia Jakobsson skoraði með skoti úr teignum. 

Olivia Schough tvöfaldaði forystu sænska liðsins á 57. mínútu með þrumuskoti rétt utan teigs þegar hún smeygði sér á milli íslenskra varnarmanna og skaut óverjandi þrumuskoti fyrir Söndru í íslenska markinu.  Ekki var meira skorað í leiknum þrátt fyrir ágætis tilraunir á báða bóga og tveggja marka sigur Svía staðreynd.

Íslenska liðið sýndi góða frammistöðu gegn sterku liði Svía og er, þrátt fyrir tapið, í góðri stöðu til að ná 2. sæti riðilsins.  Svíar eru öruggir með efsta sætið eftir sigurinn í kvöld, eru með 19 stig og eiga einn leik eftir.  Slóvakía vann í kvöld 2-0 sigur á Lettlandi og er í 3. sæti með 10 stig á eftir Íslandi sem er með 13 stig.  Ísland og Slóvakía eiga bæði tvo leiki eftir, þar á meðal innbyrðis viðureign í Slóvakíu 26. nóvember, og síðasti leikur Slóvaka er gegn Svíum. 

Staðan og leikirnir í riðlinum