• þri. 12. des. 2023
  • Fræðsla

Fræðsluverkefnið Verndarar barna í 10 heimsóknir í ár

Verkefnið Verndarar barna, sem er samstarfsverkefni KSÍ og Barnaheilla - Save the children á Íslandi, hefur gengið nokkuð vel á árinu. Heimsóknirnar hafa verið 10 talsins um allt land. Nóvember var sérstaklega stór mánuður þar sem farið var í fimm heimsóknir á Sauðárkrók, Húsavík, Egilsstaði og Höfn í Hornafirði. Á Höfn voru haldin tvö námskeið, eitt á íslensku og annað á ensku.

Námskeiðin, sem eru félögunum að kostnaðarlausu, hafa gengið vel og er almennt mikil ánægja með þau. Verkefnið snýst um það að sérfræðingur frá Barnaheillum heimsækir aðildarfélög KSÍ með fræðsluna "Verndarar barna" þar sem markmiðið er að fyrirbyggja kynferðislegt ofbeldi gegn börnum, þekkja einkenni ofbeldis og læra að bregðast við.

KSÍ og Barnaheill stefna að því að öll aðildarfélög KSÍ fái fræðslu áður en verkefninu lýkur, í ágúst 2024. Við hvetjum því félög til að hafa samband við verndararbarna@barnaheill.is til að bóka fræðslu í sitt félag. Hægt er að aðlaga heimsóknirnar að hverjum stað og hefur fjöldi þátttakenda verið allt frá 5 upp í 38 manns. 

Mynd með frétt er tekin á námskeiði á Húsavík.

Höfn í Hornafirði