• fös. 01. feb. 2008
  • Fræðsla

Endurmenntun KSÍ B þjálfara

Þjálfari að störfum
coaching3

Fjöldi menntaðra knattspyrnuþjálfara hér á landi hefur aukist jafnt og þétt á síðustu árum. Árið í ár fór vel af stað, því þau þrjú námskeið sem haldin hafa verið hingað til á árinu hafa verið vel sótt.

Alls hafa 271 þjálfarar útskrifast með KSÍ B gráðu hér á landi á undanförnum árum. 77 þeirra hafa haldið áfram í þjálfaramenntunarkerfi KSÍ og hafa þar með endurnýjað KSÍ B gráðuna sína. Til viðbótar eru 115 KSÍ B þjálfarar með tilskilin réttindi fyrir sumarið 2008. Eftir standa því 79 þjálfarar sem þurfa að sækja sér endurmenntun fyrir sumarið 2008 (KSÍ B réttindi þeirra eru útrunnin).

Fræðslunefnd KSÍ hvetur þessa þjálfara til að sækja sér endurmenntun sem fyrst og þar með endurnýja KSÍ B þjálfararéttindin sín.

KSÍ bíður upp á ýmsa möguleika fyrir þjálfara til að endurnýja KSÍ B skírteini sín á næstu vikum og mánuðum. Laugardaginn 16. febrúar munu ensku ungmennalandsliðsþjálfararnir John Peacock og Brian Eastick heimsækja Ísland og halda námskeið sem opið er öllum þjálfurum. Þeir Peacock og Eastick eru sannkallaðir sérfræðingar í sínu fagi og hvetjum við alla sem möguleika hafa á að skrá sig með því að senda tölvupóst á dagur@ksi.is eða með því að hringja í 510-2977. Dagskrá verður nánar auglýst síðar.

Þá er fyrirhugað að halda leiðtogafræðslu í samvinnu við ÍSÍ í mars og einnig er fyrirhugað að halda opið þjálfaranámskeið í apríl, en það námskeið er hluti af Grasrótarstarfi KSÍ. KSÍ V þjálfaranámskeið verður svo haldið mars eða apríl og seta á því námskeiði framlengir gildistíma skírteina KSÍ B þjálfara um þrjú ár.

Hér að neðan má sjá hvaða þjálfarar þurfa að sækja sér endurmenntun fyrir sumarið 2008 og hverjir eru með fullgild réttindi. Einnig má sjá reglur um endurmenntun KSÍ B þjálfara.

Endurmenntun UEFA B

Endurmenntun knattspyrnuþjálfara

Reglugerð KSÍ um menntun knattspyrnuþjálfara

Skipulag þjálfaranámskeiða KSÍ