• mið. 11. jún. 2008
  • Lög og reglugerðir
  • Agamál

Frá fundi Aga- og úrskurðarnefndar

ÍA
Knattsp.IA.1

Á fundi Aga- og úrskurðarnefndar þann 10. júní síðastliðinn úrskurðaði nefndin í máli vegna leikskýrslu í leik ÍA/Aftureldingar - Haukar í 2. flokki kvenna sem fram fór 26. maí síðastliðinn.

Staðfest er að Karitas Hrafns Elvarsdóttir lék leikinn í treyju númer 9 en nafn hennar er ekki skráð á leikskýrslu.  Karitas Hrafns Elvarsdóttir er fædd árið 1988 og er því ekki hlutgeng til leiks með 2. flokki kvenna.  Einnig er staðfest að Haraldur Sigfús Magnússon þjálfari ÍA var ábyrgur fyrir leikskýrslu leiksins.

Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ telur þetta brjóta gegn reglugerð KSÍ um Knattspyrnumót, grein 40 (ólöglega skipuð lið) en þar segir:

40.2.    Leikmaður, sem hefur vísvitandi sagt rangt til um aldur sinn til að leika með öðrum aldursflokki en honum ber, skal sæta leikbanni til loka keppnistímabilsins.

40.3.    Ef leikskýrsla er vísvitandi ranglega fyllt út, t.d. með því að falsa nafn eða kennitölu þátttakanda, skal liðið sem í hlut á tapa leiknum með markatölunni 0-3 nema tap hafi verið stærra, þá skal sú markatala ráða.  Félag sem fyllir ranglega út leikskýrslu getur sætt sekt að upphæð allt að kr. 30.000 í meistaraflokki en 15.000 í öðrum flokkum.  Sé um vísvitandi brot að ræða skal sektin vera allt að kr. 60.000 í meistaraflokki en 30.000 í öðrum flokkum.

40.4.    Þjálfari eða forystumaður sem stuðlar að því að nafn eða kennitala er fölsuð á leikskýrslu skal sæta leikbanni eða banni frá stjórnunarstörfum í knattspyrnu í allt að eitt ár. 

Í grein 38.6. í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót (mótmæli, kærur ofl.) segir:

Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ skal beita viðurlögum skv. þessum kafla komist hún að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn ákvæðum reglugerðarinnar.

Í samræmi við reglugerð KSÍ um knattspyrnumót og starfsreglur nefndarinnar úrskurðaði Aga-og úrskurðarnefnd KSÍ á fundi sínum 10. júní 2008:

Karitas Hrafns Elvarsdóttir, ÍA, í tímabundið leikbann til og með 15. október 2008 og er henni óheimil þátttaka í öllum opinberum mótum innan vébanda KSÍ á því tímabili.

Haraldur Sigfús Magnússon, þjálfara ÍA, í tímabundið leikbann til og með 31. desember 2008 og er honum óheimil þátttaka í öllum opinberum mótum innan vébanda KSÍ á því tímabili.

Þá var Knattspyrnudeild ÍA sektuð um kr. 30.000.- vegna málsins.