• mán. 16. ágú. 2010
  • Fræðsla

UEFA með kynningarfund um Futsal

UEFA Futsal kynning í KSÍ 2010
Futsal-014

Eins og kynnt hefur verið réðust Keflvíkingar í það metnaðarfulla verkefni að halda undanriðil í Evrópukeppni Futsal (UEFA Futsal Cup).  Er hér um viðamikið verkefni að ræða hjá Keflvíkingum og hafa þeir sýnt mikinn metnað og dugnað við framkvæmdina.   

Af þessu tilefni komu tveir fulltrúar UEFA sem sjá um útbreiðslu Futsal til landsins og héldu kynningarfund um Futsal.  Kynntir voru möguleikar Futsal og hvað hægt er að gera til að auka útbreiðslu íþróttarinnar.  Þetta eru þeir Petr Fousek sem er varaformaður Futsalnefndar UEFA, en hann er fyrrum framkvæmdastjóri tékkneska knattspyrnusambandsins, og Laurent Morel frá Sviss, en hann er yfir öllum Futsalmótum á vegum UEFA.

Vinsældir Futsal hafa vaxið gríðarlega í Evrópu á síðustu 5-10 árum þó íþróttin hafi verið stunduð í áratugi.  Þekkt er t.d. að í Brasilíu er Futsal mikið notað til að kenna börnum undirstöðu atriði í boltatækni, enda er knötturinn sem notaður er í Futsal kjörinn í slíkt.  Hann skoppar ekki jafn mikið og þar af leiðandi er auðveldara að hafa stjórn á honum.  Í brasilísku félögunum Flamengo og Botafogo er öll áherslan á Futsal þangað til krakkarnir koma upp í 4. flokk (13-14 ára).  Heimsþekktir og afar liprir brasilískir leikmenn eins og Robinho, Kaká, Ronaldinho og Marta léku Futsal upp alla yngri flokkana hjá sínum félögum.

Spánverjar eru fremstir í flokki Evrópuþjóða í Futsal og þar hafa mörg félög einnig notað Futsal mikið til að kenna boltatækni.  Leikmenn eins og Andrés Iniesta og Xavi hjá Barcelona léku t.d. Futsal upp alla yngri flokkana.

UEFA Futsal kynning í KSÍ 2010