• fös. 22. nóv. 2013
  • Fræðsla

Verkefni nemenda í fjölmiðlafræði úr Fjölbrautarskólanum í Ármúla

Telma-og-Thanh

Á dögunum voru tveir nemendur úr fjölmiðlafræði 103 við Fjölbrautarskólann við Ármúla í heimsókn hjá okkur og fylgdust með fjölmiðlum á leik Íslands og Frakklands hjá U21 karla.  Þau gerðu svo verkefni um þessa reynslu sína og má sjá afraksturinn hér að neðan.

"Við heitum Telma Jónsdóttir og Thanh Tung Vu, nemendur við Fjölbrautaskólanum við Ármúla og þetta er hluti af áfanganum fjölmiðlafræði 103. Okkur langaði að fá innsýn í fjölmiðlavinnu og ákváðum að vinna verkefni tengt KSÍ. Við sendum Ómari Smárasyni, leyfis- og markaðsstjóra KSÍ póst með fyrirspurn um að fá að koma í höfuðstöðvar KSÍ í Laugardal. Hann svaraði okkur ekki og ákváðum við því að taka málin í okkar hendur og mæta bara niður eftir. Það var svo föstudaginn 11. október sem við gerðum okkur ferð í KSÍ og fengum að tala við Hilmar Þór Guðmundsson, fjölmiðla- og markaðsmálafulltrúa KSÍ, en hann er hress og skemmtilegur karl. Þá var ákveðið að við myndum koma mánudaginn 14. október og taka þátt í fjölmiðlavinnu í kringum U-21 landsleikinn, þ.e. unglingalandslið 21 ára og yngri.

Klukkan var korter yfir 5 þann 14. október þegar við mættum hress í KSÍ höfuðstöðvarnar og fengum við alveg hreint frábærar móttökur. Okkur var gefinn starfsmannafatnaður og vildi Tung vera í kvenjakkanum því honum fannst hann klæða sig einstaklega vel. Við fengum þann heiður að vera með passa sem gaf okkur aðgang að öllum svæðum sem voru V.I.P. Og við fengum það skemmtilega verkefni að dreifa leikskýrslu og fengum þannig ýmsar spurningar frá alls konar fólki sem hélt eflaust að við værum að vinna þarna, og svöruðum við þeim bara eftir bestu getu. Hilmar sagði okkur að fylgja frönskum fjölmiðlamönnum niður í svokallað „mixed zone“ og gerðum við það. Þeir virkuðu ósköp fínir við fyrstu kynni og nýttum við tækifærið og spurðum þá um fjölmiðlastarfið. Skoðun okkar breyttist þó fljótt eftir að við sáum hvað þeir voru dónalegir og hrokafullir við hann Hilmar og aðeins vegna þess að þeir fengu ekki að vera á öllum svæðum að skrifa um leikinn heldur þurftu þeir að vera í fjölmiðlastúkunni efst. Þeir hreyttu því ónotum í hann.

Í hálfleik voru alls kyns kræsingar í boði fyrir fólkið í aðalstúkunni en það er stúka m.a. fyrir fjölskyldu leikmanna, forsetann og mikilvægt fólk og máttum við einnig gæða okkur á kræsingunum. Í boði voru alls kyns tapasréttir, eða smáréttir, og bakkelsi. Að leik loknum fórum við niður í „mixed zone“ þar sem þjálfarar og leikmenn koma eftir leikinn og bjóða sig fram í viðtöl.

Á meðal okkar voru nokkrir fjölmiðlamenn, meðal annars frá Rúv, fótbolti.net og sport.is. Við vorum eins og hluti af hópnum og var það mjög skemmtilegt. Þar voru einnig frönsku fjölmiðlamennirnir að bíða eftir að ná tali af sínum leikmönnum. Fyrstur til að koma fram var íslenski landsliðsþjálfarinn og á meðan viðtali við hann stóð var einn fjölmiðill að spyrja og allir hinir að taka upp, og við gerðum eins og tókum upp á símann okkar. Við upplifuðum okkur eins og fjölmiðlamenn og okkur fannst það spennandi. Eftir hann kom franski landsliðsþjálfarinn fram og var gert það sama aftur. Síðan mættu leikmennirnir loksins. Við náðum tali af Hólmberti leikmanni í íslenska landsliðinu. Hann var mjög hógvær og svaraði öllum spurningum samviskusamlega. Nokkru seinna kom franskur leikmaður fram sem ilmaði svo vel að við löðuðumst bara að honum og fannst við þurfa að taka viðtal við þennan myndarpilt en hann hafði nú ekki mikið að segja. Þessi upplifun var frábær og við fengum mjög góða innsýn inn í fjölmiðlalífið. Við fengum frábærar móttökur og þökkum innilega fyrir okkur."

Viðtöl við Eyjólf Sverrisson, Willy Sagnol og Hólmbert Aron Friðjónsson