• fim. 05. des. 2013
  • Fræðsla

Alþjóðadagur sjálfboðaliðans er 5. desember

Allir sem einn - Áfram sjálfboðaliðar!
Allirsemeinn_logo

Fimmtudaginn 5. desember 2013 er alþjóðadagur sjálfboðaliðans.  Af því tilefni kynnir ÍSÍ sjálfboðaliðavefinn Allir sem einn sem tekinn var í notkun á síðasta íþróttaþingi. Nú þegar eru um 70 manns að nota vefinn og hafa þeir skráð inn um 2.200 klukkustundir. Þessi vefur getur nýst íþróttahreyfingunni á margan hátt og því mikilvægt að fá sem flesta til að skrá inn sitt sjálfboðaliðastarf.  Meðlimir knattspyrnufjölskyldunnar eru hvattir til að kynna sér vefinn og skrá sína sjálfboðaliðavinnu þar.


Fréttatilkynning ÍSÍ

Allir sem einn – sjálfboðaliðavefur Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands

  • 157.686 Íslendingar eru félagar í a.m.k. einu íþróttafélagi innan ÍSÍ eða um 49,3% landsmanna.
  • Um 25.000 einstaklingar eru sjálfboðaliðar í stjórnum, ráðum og nefndum innan íþróttahreyfingarinnar 
  • Enn fleiri sjálfboðaliðar koma að skipulagningu á kappleikjum, mótum og foreldrastarfi.
Í tilefni af Alþjóðadegi sjálfboðaliðans í dag, 5. desember 2013, vill Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands nota tækifærið og þakka öllum sjálfboðaliðum innan hreyfingarinnar fyrir sitt framlag í þágu íþrótta.
Starfsemi íþróttahreyfingarinnar byggist á stórum hluta á vinnu sjálfboðaliða. Fjöldi fólks hefur lagt íþróttahreyfingunni lið með því að sitja í nefndum, ráðum eða vinnuhópum, tekið þátt í foreldrastarfi eða aðstoðað við framkvæmd móta eða kappleikja.
Nýverið var tekinn í notkun sjálfboðaliðavefurinn „Allir sem einn“. Megin markmiðið með vefnum er að skapa vettvang fyrir sjálfboðaliða til þess að halda utan um sitt framlag hvort sem það er unnið í þágu íþróttahéraða, sérsambanda, félagsliða eða ÍSÍ. Einnig er markmiðið að fá yfirsýn yfir það fjölbreytta starf sem sjálfboðaliðar vinna innan íþróttahreyfingarinnar.
Við hvetjum alla til þess að fara inn á www.isi.is smella á „Allir sem einn“ og skrá inn sitt vinnuframlag. Með því móti náum við að gera störf sjálfboðaliða innan íþróttahreyfingarinnar sýnilegri.
Nánari upplýsingar um vefinn gefur Kristín Lilja Friðriksdóttir, verkefnisstjóri Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í síma 514-4000 / 865-0710 eða á netfangið kristin@isi.is. 
Allir sem einn - Áfram sjálfboðaliðar!