• fim. 24. jún. 2021
  • Lög og reglugerðir
  • Mótamál

Nýtt rafrænt kerfi fyrir félagaskipti innanlands

Skrifstofa KSÍ hefur látið útbúa nýtt rafrænt kerfi fyrir afgreiðslu félagaskipta og mun það opna formlega mánudaginn 28. júní næstkomandi á innri vef KSÍ. Um ræðir vefhýstan tölvuhugbúnað til notkunar fyrir skrifstofu KSÍ og aðildarfélög innan KSÍ, sem hannaður er til að sjá um stýringu og afgreiðslu á félagaskiptum innanlands á skilgreindum félagaskiptatímabilum.  Rafrænu félagaskiptakerfi er ætlað að einfalda til muna þá verkferla og takmarka þann tíma sem liggja að baki afgreiðslu félagaskipta, bæði hjá félögum og hjá skrifstofu KSÍ.

Nokkur aðildarfélög hafa prufukeyrt kerfið í samvinnu við skrifstofu KSÍ og hafa öllum aðildarfélögum nú verið sendar leiðbeiningar sem útbúnar hafa verið fyrir notkun á kerfinu og nýtt sniðmát (aðgengilegt einnig á vef KSÍ) sem hægt verður að nota til að sýna fram á samþykki leikmanns vegna félagaskipta. Sniðmátið er þannig útbúið að ekki þarf að prenta það út ef notast er við rafræna undirskrift.

Áfram verður notast við netfangið felagaskipti@ksi.is vegna allra fyrirspurna í tengslum við félagaskipti eða notkun á nýja kerfinu.

Félagaskipti leikmanna milli félaga sem tilheyra sitthvoru knattspyrnusambandinu (félagaskipti á milli landa) verða áfram afgreidd í gegnum félagaskiptakerfi FIFA (FIFA Transfer Matching System – TMS).

Mynd með grein:  Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net.