• mið. 04. jan. 2023
  • Fræðsla

Göngufótbolti hjá Þrótti á fullri ferð inn í nýtt ár

Knattspyrnudeild Þróttar hefur boðið upp á göngufótbolta síðastliðin fjögur ár og er von á fjölgun iðkenda á árinu. Á nýju ári sest fólk iðulega niður og virðir fyrir sér komandi ár. Eitt af því sem Rúnar Már Sverrisson, einn leikmanna í göngufótbolta hjá Þrótti, vildi bæta hjá liðinu sínu var fjöldi bolta.

Rúnar leitaði því til KSÍ sem vildi að sjálfsögðu styrkja þetta góða grasrótarstarf og færði liðinu sex bolta sem munu vonandi koma sér vel í öllum þeim tækniæfingum sem eru fram undan hjá göngufótboltaliði Þróttar.

Þróttur býður upp á æfingar í göngufótbolta einu sinni í viku, á miðvikudögum klukkan 20:30, á einum af gervigrasvöllunum þeirra í Laugardalnum. Lögð er áhersla á að allir fái æfingar við sitt hæfi. Rúnar segir að fólk þurfi ekki að vera hrætt við að vera ekki í nógu góðu formi til að mæta á sína fyrstu æfingu, því þau leggja áherslu á uppbyggingu til að minnka líkur á meiðslum.

Eins og er eru einungis karlar sem mæta á þessar æfingar en von er á að minnsta kosti tveimur konum í hópinn.

Hér má finna upplýsingar um göngufótbolta á vef KSÍ.